Eldisfiskar Krabbar & skeldýr Uppsjávarfiskar Botnfiskar

Kræklingur

Íslenskur kræklingur (Mytilus edulis) einnig nefndur bláskel, krákuskel eða kráka, er samloka af ætt sæskelja. Við Ísland er kræklingur algengur alls staðar kringum landið nema við suðurströndina. Í matarsögu Íslands hefur bláskelin eða kræklingurinn ekki verið nýttur mikið til matar en í Evrópu þykir bláskelin herramannsmatur og hefur verið á borðum manna allt frá 17. öld. Ræktun bláskelja við Íslandsstrendur og eins veiðar á villtri skel hafa færst í vöxt undanfarin ár en íslenskur kræklingur hefur þó ekki verið reglulega í boði á veitingahúsum landsins eða í matvöruverslunum en það gæti þó verið að breytast.

Stærð: Kræklingalirfa berst með straumum þangað til full myndbreyting hefur átt sér stað. Sviflæga stigið stendur í nokkrar vikur en síðan myndast skel og fóturinn vex og lirfan myndar spunaþræði til að festa sig við undirlag. Lirfan getur nú notað fótinn til sunds og til að færa sig. Stærsti kræklingur sem veiðst hefur við Ísland var 11 cm að lengd og 133 gramma þungur.

Lýsing: Skeljar kræklings eru tvær. Þær eru þunnar með hvössum röndum. Skeljarnar tvær eru tengdar saman á hjör sem hefur 1 – 4 litlar griptennur. Fullorðnar skeljar eru blásvartar á ytra borði en ungar skeljar eru brúnleitar. Innra borð skeljanna er bláhvítt. Oft eru hrúðurkarlar og mosadýr á skeljunum.

Lífshættir: Kræklingur verður kynþroska á fyrsta ári. Kræklingur hrygnir á vori eða sumri. Kvendýrin hrygna 5 – 12 milljónum eggja. Frjóvgun verður í sjónum þegar sæðisfruma hefur synt egg uppi og sameinast því. Úr frjóvguðum eggjum þroskast sviflægar lirfur sem nærast á smáum svifþörungum. Lirfurnar myndbreytast og mynda þunna gagnsæja skel. Kræklingur er algengastur í fjörum en finnst einnig neðan fjörunnar eða allt niður í 30 – 40 metra dýpi. Yfirleitt festa kræklingar sig við undirlag með spunaþráðum en ef undirlagið er mjúkt þá festa þeir sig hver við annan og mynda klasa sem liggja lausir á botninum.

Almennt er ekki talið öruggt að tína krækling við Ísland frá því í maí og fram í desember. Vegna hættu á skelfiskeitrun hefur Hafrannsóknastofnun mælt magn eiturþörunga í kræklingi með reglubundnum hætti, og hægt er að nálgast niðurstöður á heimasíðu þeirra http://www.hafro.is/. Fæða kræklings er örsmáar agnir sem hann síar úr sjónum. Mörg dýr éta krækling, þar á meðal fuglar, krabbar, kuðungar, skrápdýr og fiskar. Aðalóvinir kræklinga við Ísland eru æðarfugl, krossfiskur og krabbi.

Síðast uppfært: 20.04.2015
  • Latína: Mytilus edulis
  • Enska: Blue mussel
  • Norska: Blåskjell
  • Danska: Blåmusling
  • Þýska: Miesmuschel
  • Franska: moule commun
  • Spænska: mejillón común
  • Rússneska: Мидия съедобная / Mídija sjedóbnaja
Næringaryfirlýsing
Kræklingur, ætur hluti, soðinn
Næringargildi í 100g af ætum hluta
Innihald Eining
Orka kJ 418 kJ
Orka kcal 99 kcal
Fita 2,6 g
- þar af mettuð fita 0,3 g
Kolvetni 2,3 g
- þar af sykurtegundir 0 g
Prótein 16,6 g
Salt 0,7 g
Heimild: Skýrsla Matís 33-11
Skoða fulla töflu