Eldisfiskar Krabbar & skeldýr Uppsjávarfiskar Botnfiskar

Um vefinn

Fiskbókin var opnuð almenningi til afnota í maí 2015. Það er von okkar sem að útgáfunni standa að hún komi að góðum notum hjá öllum þeim sem sýsla með fisk, hvort sem það eru starfsmenn í hverskonar fiskvinnslu, nemendur eða almenningur. Í bókinni er samankominn fróðleikur um helstu nytjafiska, upplýsingar um veiði þeirra, s.s. veiðisvæði, á hvaða árstíma þeir veiðast og helstu veiðarfæri. Með þessari rafrænu útgáfu Fiskbókarinnar er mögulegt að koma á framfæri margvíslegum upplýsingum um fisk og fiskafurðir, fræðslu og rannsóknum sem þeim tengjast með mun skilvirkari og fjölbreyttari hætti en hægt er í prentaðri bók. Bókin sem hér birtist er öllum opin til frjálsra afnota, þó ber að geta upprunans ef upplýsingar úr bókinni eru nýttar í hverskyns annarskonar útgáfu.  Vistun bókarinnar er með þeim hætti að hægt er að prenta hana út í heild, valda kafla eða einstakar síður og nýta þær sem hluta af kynningarefni. Hver einstök síða er merkt upprunanum og er innihald hennar óbreytanlegt. Fiskbókinni er skipt í kafla: Eldisfiskar, Krabbar og skeldýr, Uppsjávarfiskar og Botnfiskar.  Í upphafi hvers kafla er lýsing á viðkomandi flokki m.a. helstu einkenni tegunda og kjörsvæði þeirra. Neðarlega á þeirri síðu eru tveir takkar Fræðsla og Skýrslur. Undir fræðslutakkanum eru slóðir á útgefið fræðsluefni, bæklinga og leiðbeiningar sem varða viðkomandi tegundir eða fiskvinnslu almennt. Undir skýrslutakkanum eru skýrslur sem hafa verið gefnar út af Matís og e.t.v. öðrum og fjalla á einhvern hátt um viðkomandi flokk. Á upphafssíðu hvers flokks eru myndir af nytjategundum sem tilheyra flokknum. Með því að færa bendilinn á ákveðna tegund og smella birtast ítarlegar upplýsingar um tegundin, þar sem rýmið er takmarkað og textinn oft lengri en birtist í fyrstu og þá er að smella á Lesa meira og kemur þá allur textinn. Á síðunni er tafla með nafni tegundarinnar á helstu tungumálum og einnig upplýsingar um næringarinnihald viðkomandi tegundar, fyrst í einfaldri útgáfu en einnig hægt að Skoða fulla töflu og er þá farið í ýtarlegar upplýsingar í gagnagrunni um Íslensk matvæli. Neðst á síðunum eru fjórir takkar: Veiðar, Afurðir og nýting, Vinnsluaðferðir og Uppskriftir.  Þar undir er að finna ýmiskonar ítarefni sem tilheyrir viðkomandi tegund. Höfundar bókarinnar eru æði margir en efni hennar er fengið af netinu, af hinum ýmsu heimasíðum sem um þennan málaflokk fjalla en þar er af nógu að taka. Helstu upplýsingaveitur eru auk útgáfu Matís www.hafro.is www.vsv.is www.visindavefur.is http://vistey.is/ www.heimaslod.is www.veitingageirinn.is www.fiskistofa.is og einnig vefur um ábyrgar fiskveiðar www.responsiblefisheries.is/islenska Eru þeim sem að þessum veitum standa, færðar bestu þakkir fyrir. Að þessari útgáfu, sem styrkt er dyggilega af AVS Rannsóknarsjóður í sjávarútvegi og Matís, komu auk starfsmanna Matís, fulltrúar Íslandsstofu, Samtökum fiskvinnslustöva og ISI (Iceland Seafood International). Verkefnisstjóri var Óli Þór Hilmarsson, kjötiðnaðarmeistari, sem einnig sá um útgáfu Kjötbókarinnar, www.kjotbokin.is, sem er sambærileg vefbók og Fiskbókin. Útlit og hönnun Fiskbókar er byggð á hönnun Kjötbókar, sem var unnin af Porthönnun, þeim Eddu V. Sigurðardóttur og Kára Martinssyni Regal..

Texti og ritstjórn: Óli Þór Hilmarsson, Þóra Valsdóttir, Ólafur Reykdal og Gunnþórunn Einarsdóttir

Grafísk hönnun: PORT hönnun, Matís

Myndir: Jón Baldur Hlíðberg, Fauna