Eldisfiskar Krabbar & skeldýr Uppsjávarfiskar Botnfiskar

Ýsa

Ýsa (Melanogrammus aeglefinus) er fiskur sem er algengur á grunnsævi á norðurhveli jarðar. Ýsan lifir á 10-200 metra dýpi og er útbreidd í Norður-Atlantshafi.

Stærð: Fyrstu æviárin vex ýsan tiltölulega hratt. Við eins árs aldur getur hún verið orðin um 20 cm og eftir tvö ár rúmlega 30 cm. Yfirleitt er ýsan veidd þegar hún er á milli 50-65 cm löng, en stærsta ýsan sem hefur verið veidd við Ísland reyndist 112 cm. Lengd ýsu eftir aldri er nokkuð mismunandi eftir því hvort hún elur aldur sinn í hlýja sjónum sunnanlands eða þeim kalda norðanlands. Einnig verða ýsur í hlýja sjónum fyrr kynþroska en þær í kalda sjónum. Yfirleitt verður ýsan kynþroska 3-4 ára gömul. Ýsan getur orðið a.m.k. 15 ára gömul, og er hámarksþyngd hennar talin vera um 14 kg. Ýsan er flokkuð eftir stærð og kölluð eftir því, smáýsa kallast sú ýsa sem er á bilinu 25-45 cm, miðlungs- eða kurlýsa er 45-60 cm stór og stórýsa er stærri en 60 cm. Ýsur lengri en 80 cm eru sjaldséðar.

Ýsan er blágrá að lit með dökka rák eftir bol aftur að sporði og stór svartur blettur yfir eyruggum og hefur skeggþráð á neðri góm.

Lífshættir: Heimkynni ýsunnar eru í N-Atlandshafi og við Ísland er hún allt í kringum landið, einkum þó við suður- og suðvesturströndina. Ýsan tilheyrir þorskaættinni enda er hún um margt lík þorskinum. Hún heldur sig þó á minna dýpi en þorskurinn, yfirleitt á 10-200 m dýpi. Fullorðna ýsan étur ýmis botndýr, s.s. marflær, snigla en líka smáfiska, sandsíli, og loðnu. Hrygning ýsunnar stendur yfir í rúma tvo mánuði eða frá apríl til maíloka. Fjöldi eggja er frá þúsund og upp í milljón, fer allt eftir stærð hrygnunnar. Klak tekur um 12-14 daga og er lirfan um 4,5 mm við klakið. Ýsuseiðin leita til botns 2-3 mánaða gömul og eru þau þá 4-5 cm löng. Bæði eggin og lirfurnar berast með straumum vestur og norður með landinu, og jafnvel stundum austurfyrir.

Síðast uppfært: 05.09.2015
  • Latína: Melanogrammus aeglefinus (Linnaeus, 1758)
  • Enska: Haddock
  • Norska: Hyse, kolje
  • Danska: Kuller
  • Færeyska: Hýsa
  • Þýska: Schellfisch
  • Franska: Églefin
  • Spænska: Eglefino
  • Rússneska: Пикша / Píksha
Næringaryfirlýsing
Ýsa, flök, hrá
Næringargildi í 100g af ætum hluta
Innihald Eining
Orka kJ 323 kJ
Orka kcal 76 kcal
Fita 0,6 g
- þar af mettuð fita 0,1 g
Kolvetni 0 g
- þar af sykurtegundir 0 g
Prótein 17,7 g
Salt 0,2 g
Heimild: Skýrsla Matís 33-11
Skoða fulla töflu