Eldisfiskar Krabbar & skeldýr Uppsjávarfiskar Botnfiskar

Makríll

Makríll (Scomber scombrus) er hraðsyntur uppsjávarfiskur af makrílætt, sem finnst í Norður-Atlantshafi.

Stærð: Makríllinn er nokkuð stærri en síld, 40-60 sm á lengd, en þekkt er að fiskar geta orðið meira en 66 cm langir. Fiskurinn verður kynþroska við 2-3 ára aldur. Í lok fyrsta árs er makríll um 27-28 cm og er þyngdin þá 160-179 gr. Við níu ára aldur er meðallengd makríls um 40 cm og þyngdin um og yfir 600 gr.

Lýsing: Makríll er gildastur um miðjuna, mjókkar jafnt til beggja enda. Höfuðið er miðlungsstórt keilumyndað og frammjótt. Hann er eilítið yfirmyntur og munnurinn í stærra lagi. Tennur eru í einni röð á skoltum og gómbeinum og fáeinar á plógbeini, en allar smáar. Augun eru í minna lagi og yfir þeim húðfelling aftan og framan. Afturrendur vangabeins og tálknaloks eru sléttar. Bolurinn er hér um bil tvöfalt lengri en höfuðið, stirtlan lítið eitt styttri en bolurinn og mjög afturmjó. Fremri bakugginn er framan til á miðju baki, lítill og þríhyrndur, aftari ugginn er fremst á stirtlunni og aftan við hann 5-6 smáuggar, sporðurinn er djúpsýldur, með hvössum hornum, eyruggarnir eru smáir og ofarlega á hliðinni (jafnhátt augunum), neðan undir þeim eru kviðuggarnir, allstórir. Hreistrið er mjög smátt og aðeins á bol og stirtlu. Rákin er óslitin og bein. Ofan á höfði og baki er litur makrílsins grasgrænn með 30-35 dökkum hlykkjóttum skárákum á endilöngu baki, hliðarnar eru silfurgljáandi með gullinni og purpuralitri slikju, en kviðurinn hvítur, perlugljáandi. Annars getur liturinn verið nokkuð breytilegur.

Lífshættir: Makríll er úthafsfiskur, algengur í svölum sjó og heldur sig í torfum nálægt yfirborði. Á veturna heldur makríllinn sig djúpt á hafi úti en þegar vora tekur, safnast hann saman í miklar torfur og færir sig nær landi, til hrygningar og fæðuöflunar, þar sem vatnshiti er milli 11 °C og 14 °C. Markríll er svifæta og heldur sig þar sem áta og hitastig er hagstætt. Í ætisleit fer hann í miklar göngur norður um Noregshaf, norður með Noregi og síðustu ár til Íslands. Fæða makrílsins er breytileg eftir aldri og stærð hans. Ungfiskurinn étur fiskilirfur og krabbasvif svo sem ljósátu. Fullorðinn fiskur étur einnig krabbaflær svo sem ljósátu og rauðátu en einnig aðra hryggleysingja sem finnast í uppsjónum eins og pílorma. Fullorðinn makríll er einnig mikil fiskiæta, hann étur sandsíli, síld, brisling og sardínur. Makríll er sundmagalaus og sekkur því ef hann er ekki á stöðugri hreyfingu. Magn af makríl í Norðursjó minnkaði mikið upp úr 1960 vegna ofveiði. Hann er langlífur og hefur hámarksaldur makríls greinst 25 ár.

Þrír stofnar makríls eru í NA-Atlantshafi en þeir eru Vesturstofn sem er lang stærstur, Suðurstofn og Norðursjávarstofn. Makrílgöngur hafa tekið miklum breytingum undanfarin ár og er breytt göngumynstur talið orsakast af hlýnun sjávar.

Síðast uppfært: 24.07.2014
  • Latína: Scomber scombrus Linnaeus, 1758
  • Enska: Mackerel, Atlantic mackerel
  • Norska: Makrell
  • Danska: Makrel
  • Færeyska: Makrelur
  • Þýska: Makrele
  • Franska: Maquereau commun
  • Spænska: Caballa del Atlántico
  • Rússneska: Скумбрия
Næringaryfirlýsing
Makríll, flök, hrár
Næringargildi í 100g af ætum hluta
Innihald Eining
Orka kJ 1290 kJ
Orka kcal 311 kcal
Fita 25,9 g
- þar af mettuð fita 6,2 g
Kolvetni 0 g
- þar af sykurtegundir 0 g
Prótein 16,6 g
Salt 0,2 g
Heimild: Íslenski gagnagrunnurinn um efnainnihald matvæla (ÍSGEM), Matís
Skoða fulla töflu