Eldisfiskar Krabbar & skeldýr Uppsjávarfiskar Botnfiskar

Veiðar

Veiðarfæri: Makríll er veiddur í flotvörpu, nót, línu og á handfæri.

Veiðisvæði: Aðalveiðisvæði makríls á Íslandsmiðum hafa verið Austur- og Suðausturmið en jafnframt jókst veiðin á Suðvestur- og Vesturmiðum á árinu 2010 og enn frekar 2011–2012. Aðeins óverulegur hluti íslenska aflans hefur veiðst utan íslenskrar lögsögu.

Veiðitími: Helstu veiðisvæði makríls undanfarna áratugi hafa verið í Norðursjó og við Bretlandseyjar. Á því svæði er veiðin mest á haustin og fram á vor. Síðustu ár hefur makríll gengið í sívaxandi mæli inn á Íslandsmið á sumrin og fram á haust.

Afli: Árið 2005 var fyrst skráður makrílafli í íslenskri lögsögu þó að íslensk skip hafi ekki byrjað að veiða makríl markvisst fyrr en árið 2007. Makrílveiðar jukust hratt en árið 2009 voru heimildir til makrílveiða fyrst takmarkaðar.
Ekki hefur náðst samkomulag milli þeirra þjóða sem stunda veiðar úr stofninum um skiptingu aflamarks og afli undanfarinna ára hefur verið langt umfram ráðgjöf. Heildarafli Íslendinga árið 2014 er áætlaður um 147 þús. tonn.

Sjá nánar á heimasíðum FiskistofuHafrannsóknarstofnunar og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins.