Eldisfiskar Krabbar & skeldýr Uppsjávarfiskar Botnfiskar

Harðfiskur

Harðfiskur er þurrkaður og barinn fiskur, oftast unninn úr ýsu, steinbít eða þorski, en einnig þekkist harðfiskvinnsla úr ufsa, kolmunna og lúðu. Harðfiskur var lengi vel einn helsti matur Íslendinga og með honum mikið borðað af smjöri, oftast súru, og iðulega einnig sölvum. Hefð er fyrir því að borða harðfisk á þorranum ásamt öðrum hefðbundnum þorramat. Vinsældir harðfisks hafa aukist verulega undanfarin ár, og er hans mikið neytt bæði sem nasls í heimahúsum og sem nestis í sumarfríum landsmanna. Heildarframleiðsla og sala eru 200-250 tonn á ári sem er framleitt úr 2.800 – 3.000 tonnum af slægðum fiski með haus. Harðfiskur er ekki eingöngu framleiddur til manneldis, heldur hafa nokkrir framleiðendur hafið framleiðslu á harðfiski fyrir gæludýr.

Einungis um 10% af upphaflega hráefninu skilar sér í seljanlegri vöru eftir þurrkun. Kílóverð á harðfiski er því  tiltölulega hátt.

Harðfiskur úr þorski er seldur sem flök og bitar, með og án roðs.