Eldisfiskar Krabbar & skeldýr Uppsjávarfiskar Botnfiskar

Þorskur

Þorskur (Gadus) er almennt heiti yfir fiska af ættkvíslinni Gadus af ætt þorskfiska, þótt að í íslensku sé oftast átt við Atlantshafsþorsk (Gadus morhua).

Stærð: Þorskurinn getur náð 30 ára aldri og orðið allt að 50 kg að þyngd en vöxtur er mjög breytilegur eftir hafsvæðum. Við suðvesturland er algengt að þorskur sem veiddur er á vetrarvertíð, sé á bilinu 70-90 cm eða 3-7 kg að þyngd. Fyrir norðan og norðaustan land er þorskurinn hins vegar mun minni. Talið hefur verið að þorskurinn þurfi að ná a.m.k. 50 cm lengd áður en hann verður kynþroska.

Lýsing : Þorskur er straumlínulaga fiskur, kjaftstór og með skeggþráð á höku. Fiskurinn notar skeggþráðinn til að leita að fæðu á sjávarbotni. Litur er breytilegur eftir aldri og umhverfi en oftast eru þorskar gulgráir á baki og hliðum með dökkum deplum. Ungir þorskar eru rauðleitir eða brúnir, þeir lifa gjarnan í þaraskógum og þessir litir falla vel inn í umhverfið þar. Eldri þorskar eru oft gulgráir með dökkum blettum að ofan og á hliðum og ljósari að neðan. Bakuggar þorsks eru þrír og raufaruggar tveir, eyruggar eru stórir og rákin er mjög greinileg.

Lífshættir: Þorskurinn er útbreiddur í Norður-Atlantshafi, Eystrasalti og Barentshafi. Við Ísland er þorskurinn algengur allt í kringum landið. Þorskurinn heldur sig bæði á sand- og leirbotni og einnig á hraunbotni. Einnig þvælist hann upp um sjó í ætisleit eða við hrygningu. Hefðbundinn hrygningartími er frá febrúar og fram í apríl en klaktími er þó háður hitastigi og tegund stofns og mun vera um tíu dagar við 6-7 °C. Oft er miðað við að hrygna framleiði um 250.000 hrogn á hvert kg og gæti fjögurra kílóa hrygna því gefið af sér u.þ.b. eina milljón hrogna. Fæða smáþorsks er að mestu leyti hryggleysingjar af ýmsu tagi svo sem ljósáta, marflær og rækja. Þegar þorskurinn stækkar fer hann að éta fiskmeti og eru loðna og síli þar langmikilvægust. Vöxtur þorsks er talinn vera háður stærð loðnustofnsins á hverjum tíma. Stærri þorskur sækir í auknum mæli í stærri bráð af fiskakyni. Afræningjar þorsksins eru margir, seiði verða fyrir ásókn smáfiska og sjófugla og fullorðinn þorskur er eftirsótt fæða hjá sel og hvölum, einkum háhyrningi en einnig stórfiskum eins og hákarli.

 

Síðast uppfært: 05.09.2015
  • Latína: Gadus morhua Linnaeus, 1758
  • Enska: Cod, Atlantic cod
  • Norska: Torsk
  • Danska: Torsk
  • Færeyska: Toskur
  • Þýska: Dorsch
  • Franska: Cabillaud
  • Spænska: Bacalao
  • Rússneska: Треска / Treská
Næringaryfirlýsing
Þorskur, flök, hrá
Næringargildi í 100g af ætum hluta
Innihald Eining
Orka kJ 323 kJ
Orka kcal 76 kcal
Fita 0,6 g
- þar af mettuð fita 0,1 g
Kolvetni 0 g
- þar af sykurtegundir 0 g
Prótein 17,7 g
Salt 0,2 g
Heimild: Íslenski gagnagrunnurinn um efnainnihald matvæla (ÍSGEM), Matís
Skoða fulla töflu