Eldisfiskar Krabbar & skeldýr Uppsjávarfiskar Botnfiskar

Skata

Hér við land finnast nokkrar tegundir af ættbálki skata (Hypotremata). Má þar helst nefna tindaskötuna (Raja Amblyraja radiata) sem kunnari er undir heitinu tindabikkja. Aðrar tegundir eru til dæmis skjótta skata (Raja Hyperborea), skata (Raja batis), hvítaskata (Raja lintea) og maríuskata (Bathyraja spinicauda).

Stærð: Tindaskatan er oftast um 40-70 cm á lengd en getur orðið rúmur metri á lengd. Skatan (Raja batis) getur aftur á móti náð allt að 250 cm lengd. Hún er algeng allt í kringum landið en er þó algengust á miðunum fyrir sunnan land.

Lýsing: Skötur eru flatvaxnir brjóskfiskar, sem eru vel aðlagaðir að botnlífi. Eyruggarnir eru samvaxnir haus og bol og mynda þannig flata skífu. Augun eru ofan á hausnum og kjafturinn er þverstæður neðan á hausnum. Stirtlan hefur þróast þannig að hún lítur út eins og hali og bakuggarnir eru smáir og aftast á stirtlunni. Tindaskatan hefur fjölda smárra og stórra tinda eða gadda á ofanverðri hliðinni. Þessir tindar hafa geislagáróttan fót og afturbeygðan hvassan odd. Tindar þessir finnast einnig á öðrum tegundum skata hér við land en fjöldi þeirra er mismunandi eftir tegundum. Tindaskatan hefur 12–19 í röð eftir miðlægu bakinu og á halanum en hjá skjóttu skötu eru þeir 21-32 og 12-18 hjá skötunni. Dreifingarmynstur gadda er mismunandi milli tegunda. Sumar tegundir hafa tinda á hausnum og hefur tindaskatan slíka tinda framan og aftan við augun og einnig utan til á bakinu.

Lífshættir: Allar skötutegundirnar hér við land gjóta eggjum sem kallast pétursskip. Þær skötur sem finnast hér eru allar af sömu ættinni, Rajidae. Alls þekkjast um 330 tegundir skata í heiminum. Tindaskatan er eins og flestar skötur botnlæg (djöflaskatan er hins vegar dæmi um skötu sem ekki er botnlæg; hún lifir í uppsjó). Helsta fæða tindaskötunnar er ormar, krabbadýr, skeldýr og smáfiskar. Tindaskatan gýtur hér við land á sumrin og eru egghylkin (pétursskipin) 4–6,5 cm löng og 2,5–5 cm breið. Þau geta verið mjög algeng í Faxaflóa og annars staðar vestanlands. Tindaskatan lifir á 20–1000 m dýpi, en er algengust á 30–200 m dýpi. Hún heldur út á djúpið á veturna en gengur á grunnmið á vorin og sumrin.

Síðast uppfært: 20.04.2015
  • Latína: Amblyraja radiata (Donovan, 1808)
  • Enska: Starry ray
  • Norska: Kloskate
  • Danska: Ritte
  • Færeyska: Tindaskota
  • Þýska: Sternrochen
  • Franska: Raie radiée
  • Spænska: Raya radiada
  • Rússneska: Звёздчатый скат / Zvjózdtsjatyj skat
Næringaryfirlýsing
Skata, hrá, ekki kæst
Næringargildi í 100g af ætum hluta
Innihald Eining
Orka kJ 470 kJ
Orka kcal 112 kcal
Fita 5,0 g
- þar af mettuð fita 1,0 g
Kolvetni 0 g
- þar af sykurtegundir 0 g
Prótein 16,8 g
Salt 0,5 g
Heimild: Íslenski gagnagrunnurinn um efnainnihald matvæla (ÍSGEM), Matís.
Skoða fulla töflu