- Fiskbókin
- /
- Uppsjávarfiskar
- /
- Loðna
- /
Veiðar
Veiðarfæri: Loðna er ýmist veidd í nót- eða flotvörpu.
Veiðisvæði: Loðnuveiðar eru heimilar í fiskveiðilandhelgi Íslands, Grænlands og Jan Mayen. Þó er íslenskum skipum einungis heimilt að stunda loðnuveiðar austan Hvarfs og norðan 64°30´N í lögsögu Grænlands og er þeim þar aðeins heimilt að veiða 35% af leyfilegum heildarafla íslensku skipanna. Loðna er aðallega veidd við suður- og austurströnd Íslands.
Veiðitími: Loðna veiðist aðallega á nokkurra vikna tímabili í febrúar og mars.
Afli: Loðnuveiðar eiga sér aðallega stað þegar hrygningarstofninn þéttist fyrir austan landið og gengur réttsælis með Suðurlandi að vetrarlagi, á leið til hrygningar. Sjávarútvegsráðuneyti ákvarðar það magn loðnu sem má veiða hverju sinni og styðst við þá aflareglu að hrygningarstofninn sé ekki minni en 400 þús tonn, eftir að veiðum lýkur. Hafrannsóknastofnun mælir stærð uppvaxandi árganga reglubundið, en endanleg mæling á stærð hrygningargöngunnar fæst ekki fyrr en hún er farin að þéttast, um sama leyti og veiðar eru að hefjast. Af þessu leiðir að lokaákvörðun um heildarafla er oft tekin um miðja vertíð, sem tíðkast yfirleitt ekki um langlífari tegundir sem halda sig á íslensku landgrunni allt sitt líf.
Hrygningarstofn loðnu er mjög misstór milli ára, enda samanstendur hann að mestu leyti af einum einasta árgangi, 3 ára fiski. Þetta endurspeglast í árlegum loðnuafla sem hefur sveiflast á bilinu 0 (fiskveiðiárið 1982-1983, óvenju lítill hrygningarstofn) til 1571 þús tonn (1996-1997). Sjá nánar á heimasíðum Fiskistofu, Hafrannsóknarstofnunarinnar og Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins.