Eldisfiskar Krabbar & skeldýr Uppsjávarfiskar Botnfiskar

Loðna

Loðnan (Mallotus villosu) er smávaxinn beinfiskur sem fyrir nokkrum áratugum var lítið vitað um nema það að hún barst í feiknastórum torfum upp að Austurlandi á vetrum. Um miðjan 7. áratuginn hófust síðan veiðar á þessum fiski og nokkrum árum síðar var hún orðin einn helsti nytjafiskur Íslendinga.

Stærð: Algeng stærð loðnu sem er 3-4 ára gömul er um 13-20 cm.

Lýsing: Hliðarrák loðnunnar er frekar bein en ofan við hana er loðnan dökk en aftur á móti ljós neðan við hana. Hreistrið er fínt og lint og tálknin alsett dökkum blettum. Kjaftur loðnunnar nær alveg aftur undir augu og er neðri skolturinn stærri en efri. Augun eru meðalstór og ofarlega á hausnum sem er lítill. Loðnan er frekar löng og mjó. Þegar kemur að kynþroskaaldrinum fer hængurinn að vaxa hraðar en hrygnan og verður svo upp frá því alltaf 1-1,5 cm stærri en hrygnan. Eyruggar, bakuggi og raufaruggi loðnunnar eru nokkuð stórir en kviðuggar og sporður í meðallagi. Loðnan dregur nafn sitt af því að rákin eftir endilöngum fiskum er loðin.

Lífshættir: Loðnan verður yfirleitt ekki eldri en 3-4 ára, hrygnir þá og deyr svo. Um kynþroska breytast hængarnir svolítið í útliti og á sú breyting sinn tilgang í hrygningunni. Loðnan finnst á kaldtempruðum hafsvæðum jarðar meðal annars í kringum Ísland og við austurströnd Grænlands. Þá er hún líka í Kyrrahafi og Beringshafi. Hrygning fer fram á sandbotni í um 10-150 metra dýpt í 2-10 gráðu heitum sjó. Loðnan hrygnir frá seinnihluta febrúar og er hrygningu oftast lokið um mánaðarmótin mars-apríl þegar sólin hefur náð að hita sjóinn í kjörhitastig hrygningar. Helstu hrygningarsvæði hérlendis eru með suður- og vesturströndinni. Loðnan er torfufiskur og myndar hrygningartorfur sem geta orðið gríðarstórar. Hrygningin fer þannig fram að vegna breytinga sem hafa orðið á vaxtarlagi hængsins þá leggja 1-2 hængar upp að hrygnunni sem gýtur hrognunum og hængarnir frjógva þau og allt tekur þetta um 2-3 sek.

Loðna lifir mest á krabbaflóm eins og ljós- og rauðátu þó að einnig éti þær marflær. Loðna er eftirsótt fæða margra sjávarspendýra, nytjafiska og fugla. Talið er að hvalir éti árlega nokkur hundruð þúsund tonn af loðnu. Lúða, ufsi, ýsa og karfategundir éta einnig sinn skerf af loðnu en þorskurinn étur langmest. Einnig eru það mennirnir sem veiða loðnu í stórum mæli.

Síðast uppfært: 10.07.2014
  • Latína: Mallotus villosus (Müller 1776)
  • Enska: Capelin
  • Norska: Lodde
  • Danska: Lodde
  • Færeyska: Lodna
  • Þýska: Lodde
  • Franska: Capelan
  • Spænska: Capelán
  • Rússneska: Мойва / Mójva
Næringaryfirlýsing
Loðna, heil, hrá
Næringargildi í 100g af ætum hluta
Innihald Eining
Orka kJ 896 kJ
Orka kcal 216 kcal
Fita 17,8 g
- þar af mettuð fita 3,8 g
Kolvetni 0 g
- þar af sykurtegundir 0 g
Prótein 14,0 g
Salt 1,0 g
Heimild: Íslenski gagnagrunnurinn um efnainnihald matvæla (ÍSGEM), Matís
Skoða fulla töflu