Eldisfiskar Krabbar & skeldýr Uppsjávarfiskar Botnfiskar

Kúfskel

Kúfskel eða kúskel (Arctica islandica) er lindýr og skeldýr sem lifir í sjó í norðanverðu Norður-Atlantshafi í sand- og leirbotni.

Stærð: Kúfskelin er meðal stærstu skelja við Ísland og verður um 11 cm að lengd. Vöxtur kúfskeljar er hægur, oftast aðeins brot úr millimetra á ári. Við 50 til 100 ára aldur er skelin orðin 8 til 10 cm að meðaltali.

Lýsing: Kúfskel er þykk og kúft, nefið snýr fram. Hún er fest saman með leðurkenndri himnu, hjör sem er aftan við nefið. Á ytra borði eru þéttir og óreglulegir vaxtabaugar. Kúfskel er hvít að innan og stundum með bleikum blæ. Ungar skeljar eru gljáandi og gulbrúnar á lit. Eldri skeljar eru mattar og geta verið gulbrúnar, grábrúnar eða svartbrúnar eftir því hvernig efni er í umhverfi þeirra, skeljar sem lifa í sandi eru ljósari en skeljar sem lifa í leir.

Lífshættir: Kúfskel er grunnsævisdýr og er mestur fjöldi á dýpi sem er 5 – 50 m en kúfskel hefur einnig fundist í fjöru og alveg niður í 2000 m dýpi. Kúfskeljar verða kynþroska 5 – 6 cm á hæð og 20 – 25 ára gamlar. Kynþroski kúfskeljar virðist fara meira eftir stærð en aldri og fundist hafa kynþroska skeljar við Ísland sem aðeins eru 6 ára gamlar. Hjá flestum skeljum byrja svil og hrogn að þroskast í apríl-maí og eru flestar komnar með fullþroska kynkirtla í ágúst-september. Hrygning fer aðallega fram í október til nóvember. Kúfskelin liggur niðurgrafin á sjávarbotni þannig að skelröndin með inn- og útstreymisopum stendur nokkra millimetra upp úr. Skelin getur þó verið grafin meira niður, alveg í 15 til 20 cm og virðist hún geta hætt að anda í nokkra daga. Fæða kúfskeljar er svifþörungar. Kúfskelin dælir sjó í gegnum sig. Fæðan fer inn um innstreymisop, inn undir möttul og út um útstreymisop. Fæðuagnir festast í slími á tálknum skeljanna og berast með bifhárum að munnopinu. Ýmsir fiskar, svo sem ýsa og þorskur, lifa á kúfskel, aðallega smáskel en steinbítur getur brotið og étið stórar skeljar.

Síðast uppfært: 20.04.2015
  • Latína: Arctica islandica
  • Enska: Ocean quahog, Iceland cyprine
  • Norska: Kuskjell
  • Danska: Molboøsters
  • Þýska: Islandmuschel
  • Franska: Cyprine d'Islande
Næringaryfirlýsing
Kúfskel, vöðvi, hrár
Næringargildi í 100g af ætum hluta
Innihald Eining
Orka kJ 204 kJ
Orka kcal 48 kcal
Fita 0,6 g
- þar af mettuð fita 0,1 g
Kolvetni 2,5 g
- þar af sykurtegundir 0 g
Prótein 8,2 g
Salt 1,3 g
Heimild: Íslenski gagnagrunnurinn um efnainnihald matvæla (ÍSGEM), Matís
Skoða fulla töflu