Eldisfiskar Krabbar & skeldýr Uppsjávarfiskar Botnfiskar

Hörpudiskur

Hörpudiskur (eða báruskel) (Chlamys islandica) er sælindýr af diskaætt og er langstærsta og algengasta tegund ættarinnar hér við land. Hörpudiskur þykir góður til átu. Hörpudiskur er kaldsjávartegund, þekktur í Norðurhöfum, í Norður-Atlantshafi, suður til Buzzardsflóa í Massachusetts, við Ísland, við norðurströnd Noregs suður til Björgvinjar og í Norður-Kyrrahafi og víðar.

Stærð: Hörpudiskur er langstærstur diskategunda við Ísland og einnig algengastur. Skeljastærð er mismunandi, bæði eftir aldri og svæðum, en 65-90 mm skeljar eru að jafnaði algengastar í afla. Oft fást þó 100 mm stórar skeljar og stærstu skeljar sem vitað er um voru 140 og 160 mm.

Lýsing: Skeljar hörpudisks eru kringluleitar og yfirleitt aðeins hærri en þær eru langar. Báðar skeljarnar eru svo að segja jafnstórar og með mörgum misgrófum geislarifjum. Skeljarnar eru samfastar á svokallaðri hjör og þar fyrir innan er þríhyrnt tengslasæti. Tengslasætið er sveigjanlegt, brjóskkennt og spennir sundur skeljarnar þegar slaknar á samdráttarvöðvanum. Litur skeljanna er mjög breytilegur, eða frá því að vera hvítur eða mógrár yfir í gulan, appelsínurauðan eða purpuralitaðan, oft með dökkum og ljósum baugum á víxl eða „árhringjum“. Efri (vinstri) skelin er ávallt dekkri.

Lífshættir: Búsvæði hörpudisksins er á grófgerðum hafsbotni þar sem finna má sand, skeljasand, möl og steinvölur. Hann er sjaldgæfari þar sem er grýttur eða leirkenndur botn. Hörpudiskinn má helst finna á straumþungum svæðum sem eru hentug fyrir dýr sem sía sjó til að afla sér fæðu en hann síar fæðu (plöntusvif) úr sjónum. Yfrleitt festir hörpudiskurinn sig við undirlagið (t.d. tómar skeljar og steina) með þráðum úr þar tilgerðum spunakirtli en mest er um það að yngri skeljar festi sig. Hörpudiskurinn er langlíf tegund. Við Noreg hafa greinst einstaklingar allt að 23 ára gamlir en mun eldri einstaklingar fundust í hörpudiskstofninum við Nuuk á Grænlandi. Þar var talið að 40% af stofninum væri eldri en 21 árs og þar mátti finna einstaklinga sem taldir voru eldri en 35 ára. Tegundin er staðbundin og ekkert hefur komið í ljós, t.d. með merkingum, sem bendir til þess að um markvissar langar göngur sé að ræða. Nokkuð hreyfir hörpudiskurinn sig úr stað, einkum dýpra eða grynnra og innar eða utar á viðkomandi svæði. Að líkindum stjórnast slíkar smágöngur af hitastigi sjávar og hafróti a.m.k. í verstu veðrum. Hörpudiskur er gott sunddýr af skeldýri að vera. Sundið fer fram með því að opna og loka samklokunum á víxl.

Síðast uppfært: 20.04.2015
  • Latína: Chlamys islandica
  • Enska: Iceland scallop
  • Norska: Haneskjell
  • Danska: Grønlandsøsters
  • Þýska: Isländische Kammuschel
  • Franska: Peigne islandais
  • Spænska: Peine islándico
  • Rússneska: Гребешок исландский / Grebeshók islándskij
Næringaryfirlýsing
Hörpudiskur, ætur hluti, hrár
Næringargildi í 100g af ætum hluta
Innihald Eining
Orka kJ 384 kJ
Orka kcal 90 kcal
Fita 0,8 g
- þar af mettuð fita 0,1 g
Kolvetni 2 g
- þar af sykurtegundir 0 g
Prótein 18,9 g
Salt 0,14 g
Heimild: Íslenski gagnagrunnurinn um efnainnihald matvæla (ÍSGEM), Matís
Skoða fulla töflu