Eldisfiskar Krabbar & skeldýr Uppsjávarfiskar Botnfiskar

Bleikja

Heimskautableikja (oftast aðeins kölluð bleikja) (fræðiheiti: Salvelinus alpinus) er laxfiskur sem lifir bæði í vötnum og sjó á Norðurslóðum. Hún getur orðið allt að 12 kíló að þyngd, en verður sjaldan þyngri en 500 grömm. Nafnið er dregið af rauðbleikum litnum á kviðnum. Hún er sá ferskvatnsfiskur sem lifir nyrst og hefst við í súrefnisríkum köldum vötnum sem botnfrjósa ekki. Bleikja sem lifir í sjó, gjarnan kölluð sjóbleikja, gengur upp í ferskvatn til að hrygna. Bleikja er vinsæll fiskur hjá sportveiðimönnum. Bleikjueldi er einnig stundað í einhverjum mæli á Íslandi og í Noregi.

Bleikjueldi

Bleikjueldi er fiskeldi þar sem bleikjan er alin upp í sláturstærð í eldisstöðvum. Áætlað var að um 3600 tonn af bleikju yrðu franmleidd árið 2014.

Aðstæður eru góðar fyrir bleikjueldi hér á landi þar sem jarðvarmi nýtist við framleiðslu seiða og nóg er af hreinu vatni. Í dag er Ísland stærsti bleikjuframleiðandi í heiminum og hér á landi hefur skapast mikil þekking á bleikjueldi. Íslenski bleikjustofninn er blessunarlega laus við alla sjúkdóma. Bleikjan er heppileg til matargerðar, bragðgóð, lág í kólesteróli og mettuð af Omega 3 fitusýrum sem stuðla að betri blóðrás í líkamanum.

Helstu bleikjustöðvar á Íslandi eru Íslandsbleikja, Fagradalsbleikja, Glæðir, Tungusilungur, Hólalax, Rifós og Fiskeldið Haukamýri. Margar af eldisstöðvum á Íslandi voru upphaflega byggðar fyrir laxeldi.

Vaxtarhraði fiska er háður hitastigi. Við venjulegar aðstæður 9-10 °C tekur 12 mánuði fyrir seiði að ná í 100 gr þyngd. Talið er að við góðar aðstæður og skipulag megi framleiða 50-70 kg á ári af bleikju á hvern rúmmetra eldisrýmis í kerjum.

Síðast uppfært: 19.06.2015
  • Latína: Salvelinus alpinus (Linnaeus, 1758)
  • Enska: Arctic charr
  • Norska: Bleike
  • Danska: Fjeldørred
  • Færeyska: Bleikja
  • Þýska: Saibling
  • Franska: Omble arctique
  • Spænska: Trucha alpina
  • Rússneska: Арктический голец
Næringaryfirlýsing
Bleikja, eldi, flök, hrá
Næringargildi í 100g af ætum hluta
Innihald Eining
Orka kJ 769 kJ
Orka kcal 185 kcal
Fita 12,1 g
- þar af mettuð fita 2,0 g
Kolvetni 0 g
- þar af sykurtegundir 0 g
Prótein 18,9 g
Salt 0,09 g
Heimild: Skýrsla Matís 33-11
Skoða fulla töflu