Eldisfiskar Krabbar & skeldýr Uppsjávarfiskar Botnfiskar

Keila

Keila (Brosme brosme) er nytjafiskur af vatnaflekkaætt, sem er ný ætt, en tilheyrði áður þorskaætt. Hún lifir í Norður-Atlantshafi bæði austan og vestan megin við Ísland.

Stærð: Keilan er seinvaxta og verður ekki kynþroska fyrr en átta til tíu ára gömul. Þá er hún hálfur metri á lengd og vegur 1-2 kg. Fullvaxin getur hún orðið yfir metri á lengd en í afla er hún oftast 40-75 cm og 0,5-3 kg. Stærsta keilan sem veiðst hefur við Ísland (og líklega í heiminum) var 120 cm á lengd. Keilan er talin geta orðið allt að 40 ára gömul.

Lýsing: Keilan er löng, með sívalan bol, einn bakugga eftir endilöngu bakinu og einn langan raufarugga sem báðir eru með einkennandi dökkri rönd yst og hvítum jaðri, auk eyrugga og kviðugga. Sporðurinn er lítill og hringlaga. Keilan hefur skeggþráð á neðri vör sem skagar eilítið fram fyrir þá efri og rönd eftir bolnum endilöngum. Roðið er þykkt og hreistrið smátt. Keilan er móleit sem fer frá rauðbrúnu og yfir í gulbrúnt eftir umhverfi. Yngri fiskar hafa sex ljósar þverrákir á síðunni.

Lífshættir: Keila er botnfiskur sem heldur sig við grýttan botn í 0-10 °C heitum sjó á 20-1000 metra dýpi þar sem hún syndir dreift eða í litlum hópum. Hún lifir aðallega á krabbadýrum, litlum botnfiskum og jafnvel krossfiskum. Keilan hrygnir tveimur milljónum hrogna í apríl-júlí sem klekjast út eftir tíu daga. Seiðin eru sviflæg og berast með öðru svifi langt út á haf. Þegar fiskurinn er orðinn um 5 cm langur syndir hann djúpt niður á botn. Við Ísland hrygnir keilan við brún landgrunnsins í 5-9 °C heitum sjó undan Suður- og Suðvesturlandi, en uppeldisstöðvar hennar virðast vera við Norður- og Austurland. Mikilvægustu hrygningarstöðvar keilunnar eru á landgrunni Íslands, Færeyja og Hjaltlandseyja. Helstu óvinir keilunnar eru selur og hákarl og aðrir ránfiskar: þorskur, langa og skata.

Síðast uppfært: 20.04.2015
  • Latína: Brosme brosme (Ascanius, 1772)
  • Enska: Torsk, tusk, cusk
  • Norska: Brosme
  • Danska: Brosme
  • Færeyska: Brosma
  • Þýska: Brosme
  • Franska: Brosme
  • Spænska: Brosmio
  • Rússneska: Менёк / Menjók
Næringaryfirlýsing
Keila, flök, hrá
Næringargildi í 100g af ætum hluta
Innihald Eining
Orka kJ 372 kJ
Orka kcal 88 kcal
Fita 1,3 g
- þar af mettuð fita 0,2 g
Kolvetni 0 g
- þar af sykurtegundir 0 g
Prótein 19,1 g
Salt 0,3 g
Heimild: Íslenski gagnagrunnurinn um efnainnihald matvæla (ÍSGEM), Matís
Skoða fulla töflu