- Fiskbókin
- /
- Botnfiskar
- /
- Karfi
- /
Veiðar
Karfaveiðar á Íslandsmiðum eru tiltölulega nýjar af nálinni, a.m.k. í samanburði við veiðar á þorski, því þær hófust ekki fyrr en skömmu eftir að botnvörpuveiðar voru innleiddar fyrir alvöru á Íslandsmiðum eftir 1900. Karfaafli (gullkarfi) var þó hverfandi lítill framan af og jókst ekki að ráði fyrr en á seinni hluta fjórða áratugarins. Veiðar á djúpkarfa hafa verið stundaðar frá byrjun sjötta áratugar síðustu aldar en veiðar á úthafskarfa hófust árið 1982. Beinar veiðar á litla karfa hófust árið 1997 og hafa verið slitróttar síðan.
Veiðarfæri
Mestur hluti þess gullkarfa sem veiddur er á Íslandsmiðum veiðist í botnvörpu. Djúpkarfi/úthafskarfi á Íslandsmiðum hefur einnig lengst af verið veiddur í botnvörpu. Á tíunda áratug síðustu aldar voru þó umtalsverðar flotvörpuveiðar sem hafa lagst af.
Gullkarfi – Veiðarfæri
Veiðisvæði
Gullkarfi veiðist aðallega í landgrunnshlíðum við vestan og suðvestanvert landið.
Helstu veiðisvæði djúpkarfa eru í landgrunnshlíðunum á um 450–600 m dýpi, frá Víkurál vestur af Vestfjörðum, suður og austur um að vesturkanti Íslands-Færeyjahryggs.
Úthafskarfinn er að mestu veiddur suður og suðaustur af Grænlandi (efri stofn) eða vestan við Reykjaneshrygg, við lögsögumörk Íslands og Grænlands og innan þeirrar íslensku (neðri stofn).
Litli karfi finnst einkum suður af landinu.
Gullkarfi – Veiðisvæði
Veiðitími
Framan af voru karfaveiðar árstíðabundnar. Þær voru einungis stundaðar á sumrin, þ.e. eftir að vetrarvertíð lauk og fram á haust, og fengu miðin þannig hvíld yfir vetrarmánuðina. Nú eru veiðarnar stundaðar meira og minna allt árið. Úthafskarfi er að mestu veiddur í júlí til október (efri stofn) og maí til júlí (neðri stofn).
Afli
Karfafli á Íslandsmiðum hefur verið á bilinu 50-70 þúsund tonn undanfarin ár og er hann meðal þeirra fisktegunda sem gefa hvað hæst aflaverðmæti. Veiðum á krafa er stýrt með aflamarki/kvóta sem er ákvarðaður árlega af stjórnvöldum. Aflamark er nú gefið út fyrir hverja tegund karfa fyrir sig þ.e. gullkarfa, djúp-/úthafskarfa (saman) og litla karfa. Þar sem karfategundir hafa lengst af ekki verið aðskildar í lönduðum afla er yfirleitt átt við samanlagðan afla gullkarfa og djúpkarfa/úthafskarfa þegar aflatölur karfa eru gefnar upp, nema annað sé tekið fram.
Gullkarfi – aflatölur