Eldisfiskar Skel & krabbadýr Uppsjávarfiskar Botnfiskar

Vinnsluaðferðir

Helsta vandamálið við vinnslu á kolmunna hefur hingað til verið tengt gæðum hráefnisins. Mikil þróun hefur verið á fiskiskipum uppsjávarflotans sérstaklega með tilkomu makríls inn í íslenska lögsögu og eru skip annars vegar komin með frystingu um borð og því möguleika til vinnslu aflans upp að vissu marki. Hins vegar hefur hinn hefðbundni uppsjávarveiðifloti gengið í gegnum ákveðna endurnýjun, sérstaklega hvað varðar kælingu um borð, og þetta tvennt gerir það að verkum að mögulegt er að fá mun betra hráefni frá uppsjávarskipaflotanum til áframvinnslu á kolmunna í landi.

Venjan hér á landi hefur verið að setja kolmunnann í bræðslu og selja sem mjöl og lýsi til fóðurframleiðslu. Kolmunni er af þorskaætt og safnar fitu í lifur en ekki í hold og því fæst lítið lýsi úr honum. Við framleiðslu á fiskmjöli og lýsi eru þrír meginþættir fisksins aðskildir, vatn, þurrefni og olía. Vökvafasinn er pressaður burt og úr honum er olían síðan unnin með skilvindutækni. Sá vökvi sem eftir er gufar að lang mestu leyti upp áður en lokaafurð verður til.