Eldisfiskar Krabbar & skeldýr Uppsjávarfiskar Botnfiskar

Kolmunni

Kolmunni (Micromesistius poutassou, e. blue whiting) er af þorskfiskaætt (Gadidae) eins og nokkrir af þekktustu nytjafiskum Íslandsmiða, svo sem þorskur (Gadus morhua), ýsa (Melanogrammus aeglefinus), ufsi (Pollachius virens), keila (Brosme brosme) og langa (Molva molva).

Stærð: Kolmunni getur orðið allt að 50 cm á lengd en samkvæmt mælingum fiskifræðinga er hann oftast 30-40 cm.

Lýsing: Kolmunni er fremur smávaxinn, rennilegur, lang- og grannvaxinn. Gotraufin er mjög framarlega á stuttum bolnum, en styrtlan er löng og sterk. Hausinn er meðalstór, augu fremur stór og munnurinn í meðallagi. Fiskurinn er yfirmynntur og hefur engan hökuþráð. Bakuggar eru þrír og raufaruggar tveir. Kviðuggar kynjanna eru ólíkir þar sem uggar hængsins hafa mun lengri ytri geisla. Eru þeir fremur smáir og staðsettir nokkuð framan við eyruggana sem eru í meðallagi stórir. Sporðurinn er sýldur og hvasshyrndur, hreistrið er frekar stórt og þunnt. Kolmunninn er silfurgrár á baki, hliðum og á kvið. Mógrá rákin er hátt uppi á bolnum og aðeins sveigð niður aftan til á móts við aftasta bakugga. Munnur hans er svartur að innan og dregur hann nafn sitt af því.

Lifnaðarhættir: Kolmunni sá sem hér veiðist finnst aðallega í Norðaustur-Atlantshafi frá Svalbarða suður til Marokkó og inn í Miðjarðarhaf. Hann finnst einnig við Grænland og undan ströndum Kanada og Bandaríkjanna. Kolmunninn heldur sig mest í úthafinu og er þá í miðsævinu eða uppsjónum á 2-400 metra dýpi, en ungfiskarnir eru gjarnir á að halda sig nær botni eða á allt að 1000 metra dýpi. Aðal hrygningarsvæði kolmunnans í Norðaustur-Atlantshafi eru við landgrunnsbrúnirnar norðvestan og vestan við Bretlandseyjar en kolmunninn hrygnir í smærri stíl suðvestur af Íslandi, við Færeyjar og í norsku fjörðunum. Önnur tegund kolmunna er þekkt (Micromesistius australis) en hún finnst í Suðvestur-Atlantshafi og Suðvestur-Kyrrahafi. Hér við land finnst kolmunni einkum við suðaustur-, suður- og suðvesturströndina. Eggin og lirfurnar eru sviflæg og finnast aðallega í efstu lögum sjávar. Eftir hrygningu fer hrygningarstofninn sem hrygnir við Bretlandseyjar í ætisgöngur norður í haf, enda gengur hrygningin nærri kolmunnanum og étur hann lítið sem ekkert meðan á henni stendur. Torfurnar fara um hafið milli Íslands og Noregs og jafnvel allt norður í Barentshaf. Fiskarnir fara síðan holdmiklir og hraustir sömu leið til baka þegar haustið gengur í garð.

Fæða yngri kolmunna er svifdýr og fiskseiði en eldri fiskar éta ýmsar tegundir smáfiska. Á árunum 1975-80 stórjukust veiðar úr stofnum kolmunnans á ofangreindu hafsvæði, fóru úr um 112 þúsund tonnum í 1,1 milljón tonn á ári. Síðan þá hafa verið talsverðar sveiflur í afla.

Síðast uppfært: 24.02.2015
  • Latína: Micromesistius poutassou (Risso, 1827)
  • Enska: Blue whiting
  • Norska: Kolmule, blågunnar
  • Danska: Blåhvilling, sortmund
  • Færeyska: Svartkjaftur
  • Þýska: Blauer Wittling
  • Franska: Merlan bleu, poutassou
  • Spænska: Bacaladilla
  • Rússneska: Путассу / Putassú
Næringaryfirlýsing
Kolmunni, flök, hrá
Næringargildi í 100g af ætum hluta
Innihald Eining
Orka kJ 337 kJ
Orka kcal 79 kcal
Fita 0,8 g
- þar af mettuð fita 0,1 g
Kolvetni 0 g
- þar af sykurtegundir 0 g
Prótein 18,1 g
Salt 0,1 g
Heimild: Íslenski gagnagrunnurinn um efnainnihald matvæla (ÍSGEM), Matís
Skoða fulla töflu