Eldisfiskar Krabbar & skeldýr Uppsjávarfiskar Botnfiskar

Skarkoli

Skarkoli

Skarkolinn er einnig kallaður rauðspretta, vegna rauðra (eða svartra) bletta á bakinu. Hann var lengi vel okkar mikilvægasta flatfisktegund, en nú hefur grálúðan leyst hann af hólmi. Skarkolinn er nokkuð algengur allt í kringum landið. Yngri fiskurinn er einna mest á grunnslóð á sand- eða leirbotni en eldri fiskurinn heldur sig dýpra utan hrygningartímans.

Stærð: Skarkoli er flatfiskur sem liggur á vinstri hliðinni og hefur bæði augun á hægri hliðinni sem snýr upp. Hann er oftast 30 til 50 cm langur og 300 til 1300 g að þyngd en getur þó orðið talsvert stærri.

Lýsing: Haus skarkola er allstór með nokkrum áberandi beinhnúðum í röð frá augum aftur fyrir tálknabogana. Kjaftur er lítill með litlar en hvassar tennur og fremur þykkar varir. Einn samfelldur bakuggi nær frá augum aftur að sporði. Einn raufaruggi er gegnt bakugganum og nær fram á móts við eyrugga. Nokkru framar eru kviðuggar. Sporður er fremur stór og bogadreginn fyrir endann. Hreistur er mjög smátt og slétt. Efri hlið skarkolans er brún á lit eða mógrá, misdökk eftir lit á botni. Um allan fiskinn eru rauðleitir, kringlóttir deplar með dökka eða ljósa umgjörð. Neðri hlið fisksins er hvít.

Lífshættir: Við Ísland er skarkolinn algengur í kringum allt land. Hann lifir á 10 til 200 m dýpi. Algengastur er hann á sand- eða leirbotni og grefur sig þá stundum ofan í botninn þannig að augun ein standa upp úr sandinum. Ferðir skarkolans fara eftir árstímum. Á haustin dregur hann sig út á djúpin, en gengur aftur upp á grynningar í lok vetrar eftir hrygninguna. Fæða skarkola er fjölbreytt. Fyrst og fremst er um að ræða botnhryggleysingja, burstaorma, smáskeljar, krabbadýr og skrápdýr. Smáfiska eins og síli étur hann þó einnig. Skarkoli er algengur fiskur í norðaustanverðu Atlantshafi.

Hrygning skarkola fer aðallega fram í hlýja sjónum sunnan og vestan lands á 70 til 100 m dýpi. Einhver hrygning er þó einnig í kalda sjónum fyrir norðan land. Fyrir sunnan land hefst hrygning í febrúar en um tveimur mánuðum seinna fyrir norðan. Eggin berast upp í yfirborðslögin eftir hrygningu og frjóvgun og klekjast þar út. Lirfan er um 6 mm við klak og tekur smám saman breytingum eftir því sem hún vex og þroskast. Hún verður að seiði sem syndir upp á rönd í fyrstu. Hausbeinin taka síðan að aflagast og vinstra augað færist upp á efri rönd haussins og seiðið fer að synda á hlið með hægri hliðina upp. Þegar seiðin eru orðin um 15 mm að lengd leita þau botns á örgrunnum fjöruleirum. Seiðin hafast við á leirunum yfir sumarið en færa sig út á grunnin þegar fer að hausta. Fyrstu 2 til 3 árin heldur skarkolinn sig á grunnum svæðum en fer dýpra eftir það og blandast eldri fiski.

Síðast uppfært: 20.04.2015
  • Latína: Pleuronectes platessa Linnaeus, 1758
  • Enska: European plaice, plaice
  • Norska: Gullflyndre, rødspætte
  • Danska: Rødspætte
  • Færeyska: Reydsproka
  • Þýska: Goldbutt, Scholle
  • Franska: Carrelet, plie
  • Spænska: Solla europea
  • Rússneska: Камбала морская / Kámbala morskája
Næringaryfirlýsing
Skarkoli, flök, með roði
Næringargildi í 100g af ætum hluta
Innihald Eining
Orka kJ 347 kJ
Orka kcal 83 kcal
Fita 2,2 g
- þar af mettuð fita 0,3 g
Kolvetni 0 g
- þar af sykurtegundir 0 g
Prótein 15,9 g
Salt 0,3 g
Heimild: Skýrsla matís 33-11
Skoða fulla töflu