Eldisfiskar Krabbar & skeldýr Uppsjávarfiskar Botnfiskar

Síldarmjöl

Síldarmjöl var mikið gefið sem fóðurbætir fyrir sauðfé á fyrri hluta 20. aldar þegar hey voru oft misjöfn að gæðum og þótti féð alast vel á síldarmjölinu. Mikil framleiðsla var á síldarmjöli á árunum kringum 1940 og var ein stærsta mjölverksmiðja landsins byggð í Djúpuvík á Ströndum til að vinna síld í mjöl. Verksmiðjan þótti mjög tæknivædd og gat framleitt meira magn af mjöli en áður hafði þekkst. Það dugði þó skammt þegar síldin hvarf 1944 og var verksmiðjunni endanlega lokað 1954. Verksmiðjan hefur seinna verið útbúin sem safn um þennan tíma og vekur mikinn áhuga ferðafólks. Núorðið er síldarmjöl eftirsótt sem íblöndunarefni í fóður fyrir fiskeldi en einnig er það ennþá notað í fóðurblöndur fyrir búfénað. Mikið af síldarmjölinu er selt úr landi til ýmissa kaupenda.