Síld
Síld (Clupea harengus) hefur verið kölluð silfur hafsins vegna þeirra verðmæta sem hún skapaði íslensku þjóðinni á síðustu öld. Á þeim árum sem mest veiddist af síld var heildarsíldarafli íslenskra skipa oft yfir 600 þúsund tonn og mest 770 þúsund tonn árið 1966.
Stærð: Fullvaxin síld er um 30 cm að lengd en getur orðið allt að 50 cm og 500 gr að þyngd.
Lýsing: Síldin er blágræn á baki með purpurarauðri og fjólublárri slikju. Á hliðum og kviði er hún silfurgljáandi með fjólublárri slikju. Trýni er dökkblátt og uggar gráleitir. Hún er fremur hávaxin og þunnvaxin, hreistur er stórt og laust og rákin er varla sýnileg. Haus er í meðallagi stór, snjáldrið stutt og kjaftur lítill, en getur þanist út. Neðri skoltur teygist fram, og er síldin því yfirmynnt. Tennur eru mjög litlar. Síldin er frekar bollöng en stirtlustutt. Sporðblaðkan er djúpsýld. Tálknboganetið er þétt og notar hún það til þess að sía svif úr sjónum. Bakugginn er einn á miðju bakinu og veiðiuggi er enginn. Raufaruggi er aftarlega. Kviðuggar eru bolstæðir og eyruggar fremur litlir.
Lífshættir: Síldin er uppsjávar- og miðsævisfiskur og finnst frá yfirborði sjávar niður á allt að 250 metra dýpi. Hún er ein algengasta fisktegundin á norðurhveli jarðar og eru heimkynni hennar í austanverðu Atlantshafi, eða allt frá Hvítahafi í austri að Biskayaflóa við Spán og Frakkland og á vestanverðu Atlantshafi frá Labrador suður til Norður-Karólínuríkis í Bandaríkjunum.
Á hafsvæðinu við Ísland eru nokkrir síldarstofnar, en þeir eru íslenska sumargotssíldin, íslenska vorgotssíldin og norsk-íslenski stofninn. Íslenska sumargotssíldin hrygnir einkum á sumrin líkt og nafnið gefur til kynna og eru hrygningarsvæði hennar einkum við sunnanvert vesturland þótt hún hrygni einnig við suðausturland. Líkt og ættingi hennar, sumargotssíldin, hrygnir íslenska vorgotssíldin á vorin, einkum í apríl. Áður fyrr lágu helstu hrygningarstöðvar hennar sunnan við landið en svo virðist sem gos í Surtsey hafi spillt hrygningarstöðvum hennar með þeim afleiðingum að hún leitar nú á önnur mið til hrygningar. Þriðji og síðasti stofninn er svo norsk-íslenska síldin sem er jafnframt sá langstærsti og um 10 milljón tonn. Það sem aðgreinir hann einkum frá hinum stofnunum er að stóran hluta ársins dvelur hann utan íslenskrar fiskveiðilögsögu og því þarf að semja við aðrar þjóðir um veiðarnar. Norsk-íslenska síldin hrygnir við Noregsstrendur en kemur inn í íslenska lögsögu þegar hún er í ætisleit. Á síldarárunum svokölluðu barst hingað gríðarlegt magn úr norsk-íslenska stofninum svo firðir og flóar urðu kolsvartir á lit vegna grunnrar legu síldarinnar svo glitti í svartblátt bak hennar. Þótt þetta séu þeir síldarstofnar sem lifa við Íslandsstrendur hefur það þó komið fyrir að aðrar tegundir hafi fundist innan íslensku fiskveiðilögsögunnar, en það eru augnsíld (lat. alosa fallax) og sardína (lat. sardina pilchardus), en kjörsvæði þeirra liggja við Miðjarðarhaf og suður með strönd V-Afríku.
Síld virðist þola breytingar á seltu ótrúlega vel. Mörg dæmi eru um það að síld haldi sig við ármynni eða annars staðar í mjög seltulitlum sjó. Í Eystrsalti lifir síldin t.d. góðu lífi þótt seltan þar sé aðeins um þriðjungur þess sem hún er í venjulegum sjó. Á sama hátt finnst síld við mjög mismunandi hitastig. Í Hvítahafinu lendir síld stundum í sjó sem er um 0 °C. Síld mun sjaldan vera í hlýrri sjó en 15 °C. Síldin er félagslyndur fiskur og hefur löngum verið þekkt fyrir að safnast í torfur eða stóra flekki. Þegar síldin er í eiginlegri torfu synda allar síldarnar í sömu átt og fjarlægð milli fiska er nánast sú sama. Slíkar torfur myndast einkum að degi til vegna þess að síldarnar verða að sjá hver aðra. Sennilega berast einhvers konar boð innan torfunnar. Að minnsta kosti er augljóst að á örskotsstundu getur torfan breytt um stefnu ýmist til hægri eða vinstri, dýpkað eða grynnt á sér eftir því sem verkast vill. Verði torfan fyrir styggð virðist hver einasta síld í torfunni bregðast við á sama hátt.