Eldisfiskar Krabbar & skeldýr Uppsjávarfiskar Botnfiskar

Veiðar

Íslendingar borðuðu ekki rækju á fyrri öldum og það var ekki fyrr en á 20. öldinni að þeir fóru að veiða hana við landið.

Veiðarfæri: Rækjan er veidd í rækjuvörpu eða rækjutroll.

Veiðisvæði: Rækjuveiðar hafa verið stundaðar á Íslandsmiðum síðan á 4. áratug síðustu aldar en lengst af var eingöngu um að ræða takmarkaðar veiðar á grunnslóð. Rækjuveiðar á djúpslóð hófust um miðjan áttunda áratuginn og urðu fljótlega mun umfangsmeiri en veiðarnar á grunnslóð. Rækja hefur einkum verið veidd við vestur- og norðurströnd Íslands. Þá hafa Íslendingar veitt úthafsrækju djúpt út af landinu en einnig á fjarlægum miðum eins og við Kanada.

Veiðitími: Úthafsrækja er veidd á tímabilinu febrúar/mars til október/nóvember en innfjarðarrækja er veidd á tímabilinu október til apríl/maí.

Afli: Töluverðar sveiflur hafa verið í rækjuaflanum á Íslandsmiðum, var t.a.m. 76 þúsund tonn árið 1995 en aðeins 860 tonn árið 2006. Veiðar hafa legið niðri á grunnslóð meðan stofninn hefur verið í lágmarki en veiðar eru nú hafnar í smáum stíl.