Eldisfiskar Krabbar & skeldýr Uppsjávarfiskar Botnfiskar

Frysting

Í dag eru þorskflök og bitar einkum fryst í lausfrysti. Þau eru þá fryst eitt og eitt sér fyrir pökkun. Pakkningar geta verið af ýmsum stærðum og gerðum, allt frá því að vera nokkur hundruð grömm og upp í 4-500 kg stórkassa. Í langflestum tilvikum er þessi vara íshúðuð og pökkuð í plastpoka sem síðan er hafður í pappakassa eða öskju.

Hluti þorsks er frystur í plötufrysti til að búa til blokkir eða s.k. millillagðar vörur.

Þegar framleiða á blokkir eru flök og flakahlutar lögð saman án millilags í pappaöskjur sem húðaðar eru með vaxi eða plastefnum, þeim raðað á frystipönnur og síðan fryst. Úr blokkunum eru sniðnir fiskborgarar, fiskistautar o.fl.

Millilögð vara er á sama hátt og blokkir alltaf fryst í plötufrystum. Þegar rætt er um millilagðar vörur er oftast átt við að flökum eða flakastykkjum er raðað í öskjur með plastfilmu á milli flakalaga, þannig að flökin frjósi ekki saman og að hægt sé að losa flökin í sundur eftir frystingu án þess að þurfa að þíða vöruna.

Marningur er einnig frystur í blokkir. Þá er allur afskurður, beingarðar o.þ.h. er sett í marningsvél sem fjarlægir allt hold af beinum, roði og öðrum fiskafgöngum. Þetta tryggir að ekkert af fiskinum fer til spillis. Marningurinn er síðan settur í öskjur og frystur.

Þorskur getur verið léttsaltaður. Tilgangur léttpæklunar fyrir frystingu er að auka stöðugleika, vatnsheldni og nýtingu við flakavinnslu. Saltið hefur áhrif á það vatn sem ófrosið er í fiskinum og þar með á þær breytingar sem eiga sér stað í fiskholdinu við frystingu. Sjá nánar um léttpæklun fyrir frystingu hér.