Eldisfiskar Krabbar & skeldýr Uppsjávarfiskar Botnfiskar

Steinbítur

Steinbítur (Anarhichas lupus) finnst allt í kringum landið, en hann er þó algengastur við Vestfirði. Einnig er talsvert um hann í sunnanverðum Faxaflóa á vorin og sumrin og við SA-land á sumrin. Steinbít er einnig að finna í öllu N-Atlantshafi, bæði austan og vestanmegin.

Stærð: Steinbíturinn er oftast um 50-80 cm langur en getur orðið allt að 120 cm. Hann getur orðið yfir 20 ára, en vöxtur hans er frekar hægur. Hængar eru stærri en hrygnur. Stærsti steinbítur, sem hefur verið mældur á Íslandi, var 119 cm og veiddist hann við Papey árið 1985.

Lýsing: Steinbítur er sívalur og aflangur og hreistrið er smátt og inngróið sem gerir hann sleipan. Hann hefur stóran kjaft og miklar tennur. Hann hefur bakugga eftir endilöngum hrygg og einnig hefur hann langan raufarugga frá gotraufinni að sporði að neðan. Hins vegar hefur hann ekki kviðugga en eyrugga sem eru stórir og hringlaga og er sporður hans lítill. Af því leiðir að steinbíturinn syndir ekki með aflhreyfingum ugganna heldur með bylgjuhreyfingum bolsins. Litur er oftast blágrár, en stundum grænleitur, með dekkri þverrákum á hvorri hlið. Kviður er oft dálítið ljósari. Í bæði efri og neðri góm er steinbítur með sterkar vígtennur til að bryðja skeljar skeldýra og krabbadýra sem hann nærist á. Hann missir þessar tennur um hrygningartímann í október-nóvember og sveltur þá þar til nýjar tennur vaxa.

Lífshættir: Heimkynni steinbíts eru í Barentshafi og N-Atlandshafi frá Svalbarða, Hvítahafi og Múrmanskströndum, meðfram Noregi og inn í vestanvert Eystrasalt, í Norðursjó og suður í Biskayaflóa. Þá er hann við Bretlandseyjar, Færeyjar og Ísland. Í NV-Atlantshafi er hann við Grænland, Kanada frá Labrador og austurströnd Bandaríkjanna, suður til Þorskhöfða og jafnvel til Nýju-Jersey. Steinbíturinn lifir á 10-300 metra dýpi og hann kann best við sig á leir- eða sandbotni. Steinbíturinn hrygnir hér við land á haustin og snemma vetrar, í október og nóvember. Aðalhrygningastöðvarnar eru á 160-200 metra dýpi undan Vesturlandi og Vestfjörðum. Einnig hrygnir hann í Lónsdýpi undan SA-landi. Eggin eru 5-6 mm í þvermál og er það frekar stórt. Eftir að frjóvgun hefur farið fram er hrygnt í kökk, sem festur er við botninn. Um hrygningartímann, að hausti og snemma vetrar, missir steinbíturinn tennurnar og er tannlaus um tíma og tekur þá ekki til sín fæðu. Síðan vaxa nýjar tennur og er hann þá orðinn rýr og sækir upp á grunnslóð í leit að fæðu, sem er fyrst og fremst alls konar botndýr, einkum skeljar, eins og aða og kúfiskur, krabbadýr, sniglar, ígulker, en einnig étur steinbíturinn töluvert af öðrum fiski og þá einkum loðnu.

 

Síðast uppfært: 18.03.2015
  • Latína: Anarhichas lupus Linnaeus, 1758
  • Enska: Catfish, wolffish
  • Norska: Gråsteinbit
  • Danska: Havkat
  • Færeyska: Steinbítur
  • Þýska: Gestreifter Katfisch, Seewolf
  • Franska: Loup de l'Atlantique
  • Spænska: Perro del norte
  • Rússneska: Зубатка полосатая / Zubátka polosátaja, Зубатка / Zubátka
Næringaryfirlýsing
Steinbítur, flök, hrá
Næringargildi í 100g af ætum hluta
Innihald Eining
Orka kJ 305 kJ
Orka kcal 73 kcal
Fita 1,7 g
- þar af mettuð fita 0,2 g
Kolvetni 0 g
- þar af sykurtegundir 0 g
Prótein 16,2 g
Salt 0,2 g
Heimild: Skýrsla Matís 33-11
Skoða fulla töflu