- Fiskbókin
- /
- Botnfiskar
- /
- Hrognkelsi
- /
Afurðir og nýting
Grásleppan hefur fyrst og fremst verið veidd fyrir hrognin sem eru um 30% af heildarþyngd hennar, haus og hvelja eru um 55% og flökin um 14%. Reglur sem banna frákast hefur meðal annars leitt til markaðssóknar fyrir aðra hluti grásleppunnar og hefur vel tekist til með framleiðslu og sölu á frystri hvelju á Kínamarkað.
Til mikils var að vinna þar sem mikil verðmæti felast í útflutningi á þessari vannýttu fisktegund, sem jafnframt hefur skapað mikilvæg störf í sjávarbyggðum allt í kringum landið, við framleiðslu og útflutning á grásleppu. Framleiðslan hefur skilað auknum tekjum fyrir sjómenn og útgerð ásamt því að slæging grásleppunnar færðist að mestu í land og hefur skapað störf hjá hjá aðilum í framleiðslu. Slæging fyrir Kínamarkað er ólík hefðbundinni aðferð og kallar á flóknari handbrögð sem gerir kröfur um betri vinnuaðstæður en finnast um borð í litlum fiskibátum.
Áður var lítið brot af grásleppuafla nýtt til manneldis innanlands þar sem hún var látin síga á hjöllum fyrir neyslu. Neysla á siginni grásleppu hefur aldrei orðið almenn á Íslandi og hefur frekar átt undir högg að sækja seinni árin. Meiri hefð er hinsvegar fyrir neyslu á rauðmaga, sem ýmist er saltaður og reyktur, eða hann er soðinn/steiktur ferskur á veiðitímabilinu, en efnahagsleg áhrif eru lítil af þeim veiðum.