Eldisfiskar Krabbar & skeldýr Uppsjávarfiskar Botnfiskar

Hrognavinnsla

Hefðbundin vinnsla á loðnuhrognum hefur í stuttu máli farið þannig fram að fyrst er hrognafullri loðnunni dælt úr veiðiskipi upp í kúttara sem sker loðnuna, massinn fer síðan í tromlu sem skilur hrognin frá loðnumassanum. Hrognamassinn fer síðan í vökvaskiljur og er því næst keyrður í gegnum hreinsibúnað sem venjulega samanstendur af ormahreinsibúnaði, fleytipottum og þurrktromlu. Eftir meðhöndlun í þurrktromlu falla hrognin í hrognaker og eru þau geymd þar í 6-24 klst. eða þar til réttu vatnsinnihaldi er náð. Miðað hefur verið við að vatnsinnihald sé um 82%. Þá er hrognunum pakkað í öskjur og að lokum er varan fryst. Stærsti hluti hrognanna er seldur til Japans en Japanir neyta hrognanna yfirleitt án undangenginnar hitameðferðar. Því skiptir verulegu máli að hrognin séu unnin við heilnæmar og hreinlegar aðstæður. Í útflutningsskýrslum er talað um “niðursoðin” hrogn, en eðlilegra væri að tala um niðurlögð hrogn þar sem hér er um að ræða kavíar, sem er í besta falli gerilsneyddur.