Eldisfiskar Krabbar & skeldýr Uppsjávarfiskar Botnfiskar

Lax

Lax, Atlantshafslax, Salmo salar. Lax er samheiti nokkurra fisktegunda af ætt laxfiska (Salmonidae), sem einnig inniheldur silunga. Heimkynni laxa er í Atlantshafi og Kyrrahafi og einnig í ýmsum landluktum stöðuvötnum. Laxar eru göngufiskar. Þeir klekjast út í ferskvatni og þar alast seiðin upp, oftast í þrjú ár, en ganga þá til sjávar, þar sem laxinn er svo þangað til hann verður kynþroska. Það tekur oftast 1-3 ár. Þá gengur hann aftur upp í ána sem hann ólst upp í og hrygnir þar. Yfirleitt gengur hann í árnar á sumrin, frá maí fram í október, en þó langmest um mitt sumar. Nú er lax einnig alinn í eldisstöðvum og er þar þá frá því að seiðin klekjast út þar til fullvöxnum laxinum er slátrað.

Laxveiði hefur verið stunduð á Íslandi frá landnámsöld og eru margar þekktar laxveiðiár á landinu, flestar á svæðinu frá Þjórsá vestur og norður um land að Laxá í Aðaldal. Alls veiðist lax í um 80 íslenskum ám. Fyrr á öldum var laxinn veiddur í net og laxakistur en nú er aðeins leyft að veiða hann í net á örfáum stöðum, annars er hann veiddur á stöng.

Eldislax er heilnæm fæða

Niðurstöður mælinga benda til þess að íslenskur eldisfiskur innihaldi um 1/10 af gildandi mörkum  fyrir díoxín í fiski og jafnast hann á við eldisfisk sem hefur lægsta þekkta innihald af díoxín og díoxínlíkum PCB- efnum í N – Ameríku, Evrópu og Chile. Þessi greining sýnir að gæði eldisafurða frá Íslandi eru mikil og uppfylla allar kröfur sem gerðar eru til fæðu manna. Jafnframt hafa manneldisstofnanir og heilbrigðisyfirvöld hvatt fólk til að neyta meira af fiski. Hér er hægt að sjá í heild skýrsluna Greinargerð með niðurstöðum úr vöktun á díoxínum, díoxínlíkum PCB-efnum og bendi-PCB-efnum í landbúnaðarafurðum 2004. Lax er vinsæll matfiskur og er talinn hollur vegna þess að hann inniheldur mikið af Omega-3-fitusýrum. Hann er soðinn, steiktur og grillaður en einnig reyktur eða grafinn. Einnig er hann mjög vinsæll í sashimi og sushi.

Síðast uppfært: 19.06.2015
  • Latína: Salmo salar Linnaeus 1758
  • Enska: Atlantic salmon
  • Norska: Laks
  • Danska: Laks
  • Færeyska: Laksur
  • Þýska: Atlantischer Lachs
  • Franska: Saumon
  • Spænska: Salmón del Atlántico
  • Rússneska: Лосось атлантический / Losós' atlantítsjeskij
Næringaryfirlýsing
Lax, eldi, flök, hrá
Næringargildi í 100g af ætum hluta
Innihald Eining
Orka kJ 779 kJ
Orka kcal 187 kcal
Fita 11,9 g
- þar af mettuð fita 2,3 g
Kolvetni 0 g
- þar af sykurtegundir 0 g
Prótein 19,9 g
Salt 0,1 g
Heimild: Skýrsla Matís 33-11
Skoða fulla töflu