- Fiskbókin
- /
- Botnfiskar
- /
- Ufsi
- /
Veiðar
Veiðarfæri
Ufsinn er að langmestu leyti veiddur í botnvörpu en að litlu leyti einnig í net, á handfæri, dragnót og línu. Áberandi breyting á skiptingu ufsaafla eftir veiðarfærum átti sér stað á tíunda áratugnum, þar sem hlutdeild neta var að meðaltali 26% á árunum 1982–1996, en að jafnaði innan við 10% eftir það.
Veiðisvæði
Ufsi veiðist einkum út af vestfjörðum og suður- og suðvestanverðu landinu.
Veiðitími
Ufsi er veiddur allt árið.
Afli
Veiðum á ufsa er stýrt með aflamarki/kvóta sem er ákvarðaður árlega af stjórnvöldum. Ufsaafli á Íslandsmiðum hefur verið á bilinu 30 -100 þúsund tonn frá setningu aflamarks 1984.
Í apríl 2013 tóku íslensk stjórnvöld upp formlega nýtingarstefnu fyrir ufsaveiðar, sem er samkvæmt mati Alþjóðahafrannsóknaráðsins (ICES) í samræmi við alþjóðleg varúðarsjónarmið og stefnu íslenskra stjórnvalda um sjálfbæra nýtingu fiskistofna og hámarksafrakstur til lengri tíma litið.