Eldisfiskar Krabbar & skeldýr Uppsjávarfiskar Botnfiskar

Hlýri

Hlýri (Anarhichas minor) er steinbítstegund, oft nefndur yngri bróðir steinbíts og bendir latneska orðið minor til þess en hlýri uppgötvaðist seinna en steinbítur. Á ensku er hann kallaður spotted catfish og er bein þýðing doppóttur kattarfiskur á íslensku.

Stærð: Hlýri er töluvert stærri en steinbítur og er við kynþroska 70 – 90 cm og 4-8 kg. Yfirleitt verða þessir fiskar ekki stærri en 140 cm og eru þá um 25 ára en fyrir hefur komið að þeir verði 180 cm og þá um 26 kg.

Lýsing: Hlýri er stór fiskur, gulbrúnn og flekkóttur, jafnvel stærri en steinbítur en þó alls ekki ósvipaður honum í vexti. Það má segja að hlýri sé eins og hávaxinn ormur eða snákur í laginu. Hausinn er stór með sterklega kjálka en kjálkinn og tennurnar eru ekki eins sterkar og hjá steinbítnum. Roðið er gulbrúnt og flekkótt og er sterkara en steinbítsroð og hentar því betur til skinngerðar. Bakugginn á hlýra nær alla leið frá haus og aftur á sporð, sporðurinn er frekar smár en eyruggarnir eru frekar stórir og raufaruggi nær frá rauf og aftur að sporð. Engir kviðuggar eru á hlýra.

Lífshættir: Hlýri er botnfiskur sem finnst allt frá 100 metrum niður á 700 metra dýpi og vill hann helst sand eða leirbotn. Hlýrinn lifir í köldum sjó og finnst allt í kringum Ísland þó helst norðan og austan til. Hann finnst í kringum Færeyjar og nær Evrópu en finnst líka allt til Norður Ameríku þar sem hann finnst á 25 metra dýpi við Kanada. Fæða hlýra er aðallega skrápdýr. Hlýri er talinn ofveiddur en hefur ekki verið settur á alþjóðlega lista yfir dýr í útrýmingarhættu. Hlýri finnst á úthafssvæðum í köldu djúpsævi, vanalega undir 5 °C og á 50-800 m dýpi. Kjörlendi hans er grófur sandur þar sem eru nálæg klettasvæði þar sem er skjól og staðir sem henta fyrir hreiður. Hrygningartími er á sumrin fram á vetur og geta eggin verið 54.600. Hlýri var almennt ekki veiddur eingöngu heldur slæddist hann með í rækjutroll og önnur troll. Roðið þykir einstaklega gott til skinngerðar en hlýrinn þykir ekki eins bragðgóður og steinbítur en dæmi eru um að hlýri sé roðflettur og seldur sem steinbítur. Mikið af hlýranum er lausfryst úti á sjó og selt úr landi.

Í fiskeldi hefur hlýri reynst afbragðs vel vegna þess að hann er kaldsjávarfiskur og nóg er af köldu vatni á Íslandi sem að ekki þarf að hita. Svo virðist honum vera sama um að synda í hring í stórum eldiskörum með fleiri einstaklingum. Einnig hefur reynst auðvelt að fóðra hlýra.

Síðast uppfært: 27.05.2015
  • Latína: Anarhichas minor Olafsen, 1772
  • Enska: Spotted catfish, spotted wolffish
  • Norska: Flekksteinbit
  • Danska: Plettet havkat
  • Færeyska: Liri
  • Þýska: Gefleckter Katfisch
  • Franska: Loup tacheté
  • Spænska: Perro pintado
  • Rússneska: Пятнистая зубатка, Пёстрая зубатка / Pjatnístaja {Pjóstraja} zubátka
Næringaryfirlýsing
Hlýri, flök, hrá
Næringargildi í 100g af ætum hluta
Innihald Eining
Orka kJ 505 kJ
Orka kcal 120 kcal
Fita 6,3 g
- þar af mettuð fita 1,2 g
Kolvetni 0 g
- þar af sykurtegundir 0 g
Prótein 16,0 g
Salt 0,3 g
Heimild: Íslenski gagnagrunnurinn um efnainnihald matvæla (ÍSGEM), Matís
Skoða fulla töflu